Flettingar í dag: 65
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 63
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 225726
Samtals gestir: 54307
Tölur uppfærðar: 23.10.2017 17:56:25

Húsavík á árum áður

Nafn:

Húsavík

Farsími:

865-8698

Afmælisdagur:

1.janúar 870

Heimilisfang:

Húsavík

Staðsetning:

Ísland

Heimasími:

482-4262

Um:

Myndir og myndbönd fyrir alla sem hafa áhuga á sögu Húsavíkur

20.09.2017 15:48

Myndbönd frá Önnu Soffíu

 

16.sept-Húsavik

 

 

17.sept.-á-heiðinni

12.07.2017 13:56

MYNDBAND

Þetta skemmtilega myndband er samvinna Önnu Soffíu og Halldórs bróður hennar, þau eru börn Dadda bakara.

 

Einstaklega fallegt

 

HUSAVIK_OG_NAGRENNI

26.06.2017 13:55

Flogið með Önnu Soffíu 2017

Enn tökum við flugið með Önnu Soffíu

 

28.febrúar-2017

 

3.mars-2017

 

11.marz-2017

 

13.apríl-2017

 

22.apríl-2017

 

5.juní-2017

 

10.juní-2017

 

17.júní-2017

 

NJÓTIÐ VEL KÆRU VINIR

 

 

 

 

 

15.06.2017 21:29

Ferðast með dróna yfir Húsavík og nágrenni

Hér koma nokkur góð frá Önnu Soffíu, það er falleg tónlist með öllum myndböndunum þannig að þið getið hækkað í tölvunni ykkar og notið tónlistarinnar meðan flogið er yfir.

 

 

 

19.september-2016

 

20.september-2016

 

HÓLMAVAÐ 2016

 

15.OKTÓBER-2016

 

21.OKTÓBER-2016

 

22.OKTÓBER-2016

 

23.OKTÓBER-2016

 

24.OKTÓBER-2016

 

 

 

 

 

 

11.06.2017 16:01

Myndbönd: Anna Soffía Halldórsdóttir

Hér koma fleiri myndbönd, mjög gaman að fá að fljúga með Önnu Soffíu yfir bæinn og Reykjaheiðina ofl.

Það væri gaman fyrir mig að heyra frá einhverjum sem skoðar þetta og fá að vita hvort það er almenn ánægja með þessi myndbönd og hvort þetta skilar sér til allra. Þið getið sent mér línu á disin565@gmail.com 

 

Hér þurfið þið bara að smella á dagsetningarnar. Góða skemmtun.

 

25.5.2017

31.5.2017

27.3.2017

 

 

10.06.2017 14:53

MYNDBAND FRÁ ÖNNU SOFFÍU

Ég held að þetta sé að takast hjá mér (tæknitröllinu)

 

prófið að ýta á dagsetningarhlekkina og þá eiga myndböndin að koma

 

HÚSAVÍK-9.júní-2017  á ferð yfir höfnina ofl.

10.06.2017 14:28

Anna Soffía Halldórsdóttir

Tilraun til að koma myndböndum hér inn fyrir ykkur til að njóta

 

28.maí-2017

24.03.2017 13:13

Ljósmynda VIDEO

ÝMSAR GAMLAR

 

ELLA-SIGTRYGGS HAFÞÓR HREIÐARS OFL.

 

RÍKARÐUR-RÍKARÐSSON

 

RÍKARÐUR RÍKARÐSSON

 

GUNNAR-BÍLSTJÓRI OG HERMÍNA

 

 

 

 

 

19.03.2017 11:07

Hér koma nokkur myndbönd til viðbótar, njótið vel og hafið það sem allra best.

Anna Karls og félagar

 

Anna-Karls

 

Anna-Karls

 

Húsvískir-stuðboltar

 

18.03.2017 11:56

http://www.youtube.com/watch?v=tlWbdxpGpzw   No. 1


http://www.youtube.com/watch?v=ASj1oiqzocA&t=16s  No. 2

 

http://www.youtube.com/watch?v=AvfLN_VUqFc&t=23s  No. 3

 

 

Smá tilraunir í gangi, ef þið ýtið á hlekkina hér fyrir ofan ætti að birtast ykkur lítil video sem Halldór sonur Dadda bakara setti saman úr myndum frá Þorgrími Aðalgeirs.  Vona að þetta skili sér.

27.01.2013 20:08

Saga frá Kalla Mannsa.

Karl Emil Gunnarsson

Ég sé að Jóhannes Sigurjóns hefur rifjað upp sitt gamla (og eina og sanna) nafn James McCool. Nafngift þessi á sér auðvitað sögu eins og flest annað og er hún í fáum orðum þessi að svo miklu leyti sem hún er þekkt:

Í Mekka kvikmyndanna, Húsavíkurbíói, var á sokkabandsárum okkar félaga sýnd stórmyndin „Utah-virkið“. Hún var um eilífa baráttu góðs og ills, það er að segja hvítra manna og rauðskinna. Hún var gerð á þeim árum þegar „pólitísk rétthugsun“ var enn ekki orðin til og því fullkomlega réttmætt að líta á alla indíána sem illþýði og raunar hverja þá manneskju sem ekki var fölbleik í framan og játaði lútersk-evangelíska trú. Ein helsta hetja þessarar mögnuðu bíómyndar var „káboj“ sem nefndist James McCool og sá var nú ekki að tvínóna við hlutina þegar kom að því að lumbra á hinum skinnrauða skálkalýð. Þótti okkur félögum (Jóhannesi, Sigga í Ásgarði, Jóhanni Gísla, Kela Kára og Örlygi) mikið til kappans koma og gilti einu þótt myndin væri ein hæpnasta pródúksjón sem sést hefur í Húsavíkurbíói og er þá langt til jafnað. Til dæmis misstu tveggja mannhæða grettistök staðfestuna og færðust til þegar hinn mikli McCool hallaði sér upp að þeim. Smellnasta tilsvarið í myndinni hefur einnig orðið ódauðlegt í húsvískri kvikmyndasögu. Græningi nokkur, skjálfandi á beinunum, spyr McCool rétt áður en rauðskinnarnir leggja til atlögu: „Are you going to give them hell, sir?“ James McCool glottir út í annað og segir pollrólegur: „Do you think I'm going to give them tea, or what?“

Af einhverjum ástæðum, mér gleymdum, gáfum við félagar Jóhannesi þetta ágæta nafn og gegndi hann því svo vel að þegar hann gaf út tímamótaljóðabók sína „Æpt varlega!“ árið 1978 var höfundurinn sagður Jóhannes Sigurjónsson alias James McCool. Ég á eintak sem höfundur hefur áritað og þar stendur. „Til Karls, míns beste kamerat „Drink to me only“ your captain Johannes or JamesMcCool“ (stafsetning og greinarmerkjasetning svona, enda allar líkur á að Díonýsos hafi verið með í för þegar þetta var skrifað).

Eins og allir ábyrgir sagnfræðingar slæ ég auðvitað þennan sjálfsagða varnagla: „Hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur er sannara reynist.“

28.12.2012 21:22

Skemmtisaga frá Arnari Björns.

Ég hef einhvern alltaf veginn verið umvafinn konum. Þær mægður Bína og Magga í Róm voru útverðirnir neðst á Reykjaheiðarveginum, svo var Bogga til halds og trausts í Vilpu, Rúna var til staðar í Kvíabekk og Gína í Skógargerði og Balda í Tungu báru ábyrgð á því að enginn óboðinn kæmi niður Reykjaheiðina. Ekki má gleyma Önnu á Fossi, hún sá til þess að vopnfimir menn kæmust ekki yfir Búðarána. Mér fannst ég rosalega öruggur. Ég veit það núna að ég var 5 ára þegar þegar tilfinningasveiflur í annars dagfarsprúðri móður minni nánast báru hana ofurliði. Ég man þetta alveg ótrúlega vel. Ég hafði verið úti í garði að moka snjó en matmálstímarnir á þessum árum voru heilagir. Án efa var soðinn ýsa í pottinum, kartöflur og smjör í 15. skiptið í þeim mánuði. Ég var búinn að narta í ýsuna og lá á eldhúsgólfinu þegar ég heyri móður mína reka upp hljóð og Jesúsa sig og í minningunni skynja ég að eitthvað er að. Ég leit spurnaraugum á hana og með tárin í augunum sagði hún mér að John F Kennedy væri látinn. Ég fimm ára pjakkurinn gat auðvitað ekki áttað mig á þessum John í útlöndum sem var dauður. En þegar ég hugsa um þetta andartak í eldhúsinu á Torginu (og í Dallas) átta ég mig á því að móðir mín, eins og aðrar konur var lúmskt skotin í þessum John. Hafði hún þó hvorki farið til Bandaríkjanna né til annars útlands og vissi naumast hvar Dallas var. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að hún kynntist Dallas af eigin raun í samnefndum sjónvarpsþætti og það án þess að kaupa sér flugmiða. Ekki veit ég hvort það var sama dag eða einhverjum árum seinna, en víst er að ekki var ég hár í loftinu. Það er bankað laust á dyrnar á Reykjaheiðarvegi 6 og ég fer til dyra. Er þá ekki komin Anna á Fossi og spyr eftir móður minni. Anna á Fossi sá heimilinu nefnilega fyrir eggjum og átti í gríðarlegri samkeppni við Helga í Skógargerði (Eins gott að þau voru ekki í eiturlyfjabransanum). Ég er ekki á því að þau hafi staðið í verðstríði, held reyndar að hið hryllilega nafn, SAMRÁÐ, hafi jafnvel byrjað í eggjabúskapnum á Torginu á þessum árum. Eggin kostuðu nefnilega mjög svipað hjá þeim báðum. Helgi í Skógargerði bankaði oftast uppá vel fyrir hádegi, kannski til að vera á undan Önnu? En móðir mín var í traustum viðskiptum hjá báðum enda mikið bakað. Þá var aðeins hægt að kaupa franskbrauð, rúgbrauð og normalbrauð í bakaríinu. Ég man eftir því að einhvern tímann sagðist Helgi vera á leiðinni niður í fiskbúð og mátti ekki vera að því að þiggja kaffi. Klukkan var þá ekki orðin 10. Gína ætlaði örugglega að vera með ýsu í hádeginu. Helgi var nú ekki mikið að æsa sig, samþykkti að kíkja inn í smástund og þáði kaffi , tók í nefið og reif nokkrum sinnum upp rauða vasaklútinn sem í minningunni var svo stór að ég hélt að hann ætlaði aldrei að klára að rífa hann úr brotinu. Helgi sat lengi og ég fór að velta því fyrir mér hvort Gína ætlaði að vera með ýsuna í kvöldmatinn eða bara í hádeginu daginn eftir. Svona var þessi stóíska ró á Torginu, áhyggjulaust líf og ýsa í hádeginu. En svo komu höggin, fólk tók upp á því deyja. Oftast fór þetta framhjá manni enda var það oftast viðkvæðið hjá móður minni þegar maður spurði hvers vegna væri flaggað „þetta var bara gamall maður (eða kona)“ og þá náði það ekki lengra. En þau heiðurshjón Máni og Balda í Tungu spásseruðu alltaf prúðbúin niður Reykjaheiðarveginn þegar fáninn var hengdur í stöngina. Þau skiluðu sér nefnilega alltaf í Kirkjuna. Mér er til efs að nokkur maður hafi verið borinn til grafar öðruvísi en að þau Máni og Balda hafi mætt til leiks að hlusta á Laufeyju á Völlum syngja og prestinn fara með Guðsorðið. Þegar ég komst til nokkurs þroska og var að tengja loftnetið á þakinu á Reykjaheiðarveig 6 á laugardegi um hálf tvö á laugardegi til að hlusta á fótboltann á BBC, og sá Mána og Böldu rölta framhjá, áttaði ég mig strax að einhver hefði dáið vikunni á undan. Ég hélt bara áfram að tengja loftnetið á meðan þau héldu niður ómalbikaðan Reykjaheiðarveginn og vonaðist eftir hagstæðum úrslitum hjá mínum mönnum.

 

 

25.12.2012 13:04

Jólaminningar Hörður Jónasson Árholti

Gleði fyrir jól !

Ég var vanur að segja þessa setningu í gamla daga, því aðdragandi jóla var spennandi fyrir okkur krakkana. Einmitt á þessum tíma árs koma upp minningar úr bernskunni og það sem gerði allt svo skemmtilegt. Jólatilhlökkunin byrjaði fyrst fyrir 15. október en þá hófst rjúpnaveiðitímabil hið forna, spenningur hvort ekki yrði mánaðarfrí í skólanum svo maður kæmist með í rjúpnaveiði. Menn öfluðu frétta hjá gangnamönnum hvar helst hefði sést til rjúpna, veðurskeytin tekin og skroppið til Togga frænda Mara í Vetrarbraut og spáð í hvert skyldi halda næsta dag, ekki brást Toggi en hann var veiðimaður og mikið náttúrubarn. Matta bauð upp á steiktbrauð og kaffi. Oft var mánaðarfrí 15. október í skólanum enda veiðimenn þar eins t.d. minn kæri, Ingimundur Jónsson. Sem barn fylgdist maður með bílunum koma ofan af Reykjaheiði seinnipart dags og svo skaust maður um bæinn til að heyra í mönnum og fá tölur.

Þegar nær dró jólum var spennandi að fara og skoða í búðarglugga og labba nokkra hringi inni í búðunum. byrjað í Hrunabúð en þar var Benni Helga búinn að setja upp sælgætisborð sem var svo freistandi að lá við yfirliði. Eplalyktin í Hrunabúð var dásamleg og sló fyrir vit þó maður væri langt út á götu. Svo var komið að því að fara lengra norður í bæinn, enginn missti af ilmvatnslyktinni í Perlunni, svo voru bækur hjá Valda Hólm, gamlar og nýjar. Þá var litið á bíóauglýsingu í Húsavíkurbíó fyrir næsta sunnudag. Verslunin Þingey var líka með eitthvað spennandi, aðallega fatnað, meira var úrvalið í Öskju en þar mátti sjá ýmislegt freistandi. Man vel eftir Alla Halldórs og Togga á Hóli standandi við afgreiðsluborðið hlæjandi að að einhverju, sennilega vísu sem afi hafði gaukað að þeim fyrr um daginn. Svo kom Páll Þór á hlaupum og gantaðist við okkur krakkana eins og honum var einum lagið. Eftir Öskju lá leiðin yfir götuna að Lenubúð en þar var margt að sjá í stórum búðargluggum sem kölluðu á óskir um jólagjafir. Áfram var haldið og kíkt í glugga hjá Ingvari og skoðaðir nýjustu titlarnir, Prins Valíant ofl. Það var svo haldið áfram út í kaupfélag, þar voru Sonni, Dúddi og Hallmar Helga. Hallmar var að þusa eitthvað en snéri sér svo að okkur krökkunum og brosti blítt og lagði stóra og styrka hönd á koll.

Á Þorlákssmessu var venja að að menn staupuðu sig og oft mátti sjá menn standa við hornið á Kaupfélaginu, heimamenn og sveitamenn. Það var talað um að það væri „Láki í mönnum.“ Auðvitað gladdi augun að sjá Jólabjölluna hengd var yfir götuna milli Kaupfélagsins og Sölku, nokkrar snjókúlur flugu þá óvart. Jólatréð fékk líka sinn skammt af snjókúlum en það var eins og greinarnar að trénu sveigðu sig undan kúlunum. Svo var haldið heim sömu leið og búðargluggarnir skoðaðir aftur. Þegar komið var að Hrunabúð angaði eplalyktin sem aldrei fyrr. Það var því gott að koma heim og fá að smakka nýbakaðar smákökur hjá mömmu, því auðvitað var hún að baka eins og allar hinar húsmæðurnar. Það var veisla ef bakstur hafði mislukkast, sem reyndar var alltof sjaldan að manni fannst.

Snemma hausts byrjuðu strákar að safna í brennu þá var farið á Bifreiðastöðina og og einhver góður bílstjóri þar fengin til að keyra eina ferð um bæinn en þá var líka búið að fá pappakassa og hvað eina .Bílstjórarnir á Bifreiðastöðinni höfðu lúmskt gaman af að aðstoða okkur ef lítið var að gera, þeir Stebbi og Hreiðar Heiðarbótarbræður, Skarphéðinn, Bjössi Stefáns ofl.

Rafmagnsrúllur og dekk flutu alltaf með. Dekk þóttu mikill og góður fengur. Svo var ekið með draslið upp á Stórhól eða Holtagerði en þar var Þrettándabrenna, því lengi vel voru tvær brennur í suðurbæ og svo var þetta auðvitað barátta við norðurbæinga um brennuefni. Spírur þurfti , þær voru fengnar hjá Fiskiðjusamlaginu, frjálst eða ófrjálst. Mér eldri muna eftir brennu á Skálamel og dekki sem strákar rúlluðu upp melinn en það rann svo niður melinn aftur og endaði í hænsnakofa, það kom sér ílla í jólabakstrinum því það varð eggjaskortur. Stóru strákarnir, Sissi á Melstað, Siggi Hákonar, Þórarinn Höskulds, Sveinn Páls, Árni Logi og fleiri stjórnuðu oftast verkinu. Metnaður var mikill í að hlaða upp brennuna, ekki setja allt í eina kös. Þar komu spírurnar og gamlir ljósastaurar að góðum notum. Ekki var mikið vandamál að fá olíu á eldinn hjá Olíusölunni eða Þór Pé. Ekki má gleyma kyndlunum en þeir voru heimasmíðaðir, niðursuðudós fest á spýtu og olíubleyttur tvistur í.

Á Þorláksmessu voru útijólaljósin sett upp í Árholti og kveikt á þeim og hangikjötslyktin angaði um allt hús og lengra til. Búið að hamfletta rjúpurnar og sarpurinn skoðaður til að sjá hvort ekki væru ber í honum. Jólakortin borin í hús og angaði hangikjötslykt í hverju húsi. Jólakveðjurnar í útvarpinu sköpuðu alveg sérstaka stemmingu og þá var þetta allt að koma.

Barnaböll Kvennfélagsins voru svo eftir hátíðar og þá var nú veisla fyrir munn og maga Ekki brást að veðrið versnaði og gerði þvílíkar stórhriðar að varla var fært milli húsa. Það voru kölluð„Barnaballsveður“

Gleði fyrir jól !

Jólakveðjur, Hörður Jónasson frá Árholti.

 

 

 

 

24.12.2012 15:15

Jólin 1964

Æskuminnig frá Húsavík í desember 1964.

 

Við vöknuðum snemma þennan desembermorgun, það var laugardagur  og til stóð að skipta á rúmunum og þrífa húsið, svona eins og venja var á laugardögum.  Mamma stjórnaði aðgerðum að vanda og pabbi og við systur unnum okkar verk samhliða mömmu, allir höfðu sitt hlutverk.   Góð og snör vinnubrögð voru viðhöfð enda vant fólk á fer og  þetta tók ekki nema 2 tíma. Húsið orðið  hreint uppi og niðri og gamla þvottavélin sauð þvottinn og þvoði.  Það var grjónagrautur með súru slátri í hádegismatinn, nammi namm. 

Það hafði snjóað í logni alla nóttina og fyrir var mikill snjór í bænum svo að skaflarnir höfðu stækkað helling.  Pabbi fór og mokað slóð í heimreiðina svo við kæmumst út á götu, en þar var svosem allt á kafi líka en snjórinn var mjúkur og ekki erfitt að klofa skaflana.  Það yrði ekkert mokað fyrr en á mánudaginn.

Ég fór út að leika mér eftir hádegi, klæddi mig í gömlu gráu úlpuna af stóru systur og fór í stígvél, ullarsokka og tvenna ullarvettlinga, mamma nældi ytri vettlinga utan yfir úlpu ermarnar, ég var alveg skotheld til að fara út að kafa skafla.  Þegar ég kom út var alls ekki almennilega bjart enda dimmast tími ársins stutt undan.  Það voru víða ljós í gluggum, allavega í öllum eldhúsgluggum og greinilega mikið um að vera á heimilum bæjarbúa, þrjár vikur til jóla og kökubakstur og laufabrauðsgerð í algleymingi.  Mamma ætlaði að baka múrsteina og mömmukökur í dag og á morgun stendur til að gera laufabrauð.  Þá kemur afi í heimsókn og sker sína listaskurði og ég fæ að fletta laufunum.  Við systur erum brjálaðar í hrátt deigið og mamma þarf að passa að við étum ekki allt frá henni. 

 Ég klofa út götuna en sé enga krakka, allir inni að stússa eitthvað geri ég ráð fyrir, en mér finnst ágætt að vera ein.  Rölti framhjá Úddahúsi og niður á bakka. Sjórinn er þarna ennþá og svolítið úfinn en ekki mikill hávaði í honum í dag, rólegur eins og umhverfið. Það eru ljós á bátunum við bryggjuna en flestir eru inni í dag.  Ég rölti suður bakkann og sé að það er komin sería í stofugluggann hjá rakarhjónunum, þau eiga svo fallega seríu. Ljósin heima hjá mér koma upp í næstu viku, mamma byrjar aldrei fyrr en eftir 10 des. Ég er orðin svolítið þreytt í fótunum svo ég leggst í einn skaflinn og horfi til himins, máninn er þarna langt í burtu ósköp daufur svona rétt meðan mesta skíma dagsins gengur yfir, ég narta í snjóinn og læt mig dreyma um jólagjafirnar, vona bara að ég fái fullt af bókum, það er best.  Stóra systir ætlar að koma heim um jólin, hún er að vinna hjá heildverslun í Reykjavík, hún ætlar að koma með fullt af niðursoðnum ávöxtum og tómatsósu og fleira góðgæti til okkar. Það verður sko gaman. Við fórum  inn á Akureyrir fyrir veturinn, eins og venjulega  og versluðum hveiti, sykur og þurrvöru í kílóavís eins og áður svo að búrið okkar var vel byrgt, það var ekki ónýtt að eiga herbergi fullt af matvöru.

Ég rölti áfram suður bakkann og mæti tveim gömlum köllum, þeir heilsa mér og halda áfram niður á höfn.  Við Brimnes beygji ég upp á Garðarsbraut og ákveð að kíkja í kaffi hjá ömmu Dísu á Bjargi, hún er búin að vera að baka veit ég og mig langar í stóru góður kökurnar hennar og svo er líka von að hún sé búin að baka súkkulaðiköku, það væri ekki slæmt, amma Dísa hefur engan kvóta á kökunum , ég má borða eins og ég vil og svo fæ ég kaffi með sykri og má ráða hversu margar skeiðar ég set útí.  Amma er í eldhúsinu þegar mig ber að garði, eldhúsglugginn er alveg niður við jörð svo ég guða á gluggann og sé að amma er að gera lummur, svo var hungrið búið að heltaka mig þessa tæpu tvo tíma síðan ég borðaði hádegismat að amma rétti mér lummur út um gluggann svo ég hefði orku til að velta mér inn um kjallaradyrnar. Ég nenni ekki úr öllum gallanum svo amma skefur  af mér snjóinn með borðhníf og ég tylli mér inn í eldhús og mokað í mig góðgætinu. Amma var með krullujárnið sitt á kolavélinni og var að hita það, hún setti alltaf krullur við eyrun og snurfusaði sig alla. Afi gamli var inn í þvottahúsi að búa til mat handa hænunum sínum. Hann hrærði í tvær stórar fötur alla afganga sem til féllu á heimilinu og bætti svo við vatni og mjöli og þar með var maturinn a la dante fyrir hænur,  seinna um daginn ætlaði hann svo að rölta upp í hænsnakofa og færa þeim góðgætið, ég get svarið að það voru engin egg eins góð og eggin frá afa.  Jóna gamla sat inn í herberginu sínu og var að spinna ull, hún var alltaf að prjóna handa okkur krökkunum.  Pínulítil og fíngerð með mjóa mjúka rödd og fallegt bros sem hún átti alltaf nóg af. Þegar ég var búin að næra mig þá kom Jóna og gaf mér mola og suðusúkkulaði bita í nesti, ég kvaddi og þakkaði fyrir mig, best að halda áfram enda var ég nú full af orku.

Þegar út var komið fraus allt utan á mér sem hafði bráðnað í hitanum í eldhúsinu hjá ömmu svo ég var vel brynjuð í kuldanum.  Við Hulduhól sá ég nokkra krakka að leika sér, ég blandaði mér í hópinn og fór í snjókast alveg nauðsynlegt  að brenna einhverjum af þessum kaloríum.  Þetta var svo gaman að ólátast eins og alltaf. Svo fór að skyggja og hópurinn þynntist og hver fór til síns heima. 

Það var orðið það dimmt að stjörnurnar voru farnar að sjást, ekki var mikið um ljósastaura í litla bænum mínum og ekki voru perurnar heldur eins sterkar og nú til dags þannig að sjörnufansinn sást vel. Ég rölti niður að Melstað og lagðist þar í skafl til að hvíla mig.  Horfði upp til stjarnanna og dáðist að þeim, bjó til engla í snjóinn og lét mig dreyma, rosalega var lífið annars gott ég var viss um að mér gæti sko ekki liðið betur en akkúrat núna á þessari stundu.  Engar kröfur í huganum, bara óskir um nokkrar bækur í jólagjöf og að systir kæmi örugglega heim um jólin.

Ég rölti svo áfram og ákvað að koma við hjá ömmu Huldu því nú var mér orðið mál að pissa, ömmu hús var þannig að á neðri hæðinni var klósett við innganginnn svo maður þurfti ekki að drífa sig úr öllum gallanum til að fara inn, það var þægilegt.  Kátur tók á móti mér með glaðlegu gelti og ég knúsaði hann í bak og fyrir.  Amma kom niður til að gá hver væri á ferð, þegar hún sá að það var ég, fröken sísvöng,   þá rölti hún upp aftur og náði í slatta af nýbökuðum kökum, ólíkt ömmu Dísu kökum þá voru kökur ömmu Huldu bara pínulitlar, svona eins og einn munnbiti, en það gerði ekkert til bragðið var svo gott.  Amma stakk að mér vettlingum sem hún hafði prjónað kvöldið áður, ekki veitt af að eiga nóg af slíku.  Ég kvaddi ömmu og Kát og hélt áfram röltinu mínu.  Við Hrunabúð stoppaði ég við búðargluggann og klessti nefinu að rúðunni og reyndi að sjá gersemarnar sem þar voru inni.  Ég sá í anda heilu fjöllin af eplum og appelsínum og súkkulaði og konfekt í hjólböruvís. Rúsínur og sveskju og þurrkuð epli voru líka ofarlega í huga mínum. 

 Úff, mér var orðið svo kalt á nefinu að ég varð að hætta þessu glápi. Hélt svo áfram framhjá Gilsbakka og Úddahúsi og þá var ég komin aftur heim í götuna mína.  Það var komið kolniðamyrkur og ljósið í eldhúsglugganum heima gaf fyrirheit um nýbakaðar kökur  og síðan kvöldmat, trúlega yrði það rúgbrauð með síld og heimatilbúinni kæfu og melroses te, nammi namm,  svo er spurningaþáttur í útvarpinu í kvöld, “Það var rétt” með Svavar Gests, dásamlegt kvöld framundan og ég átti  líka eina ólesna bók sem ég hafði fengið á safninu fyrr í vikunni, ein af þessum spennu bókum eftir Enyd Blyton, ævintýra þetta og ævintýra hitt.

 Hefði ég getað átt betri æsku? Nei held sko ekki. Mamma og pabbi voru alltaf til staðar og í kærleik þeirra og umhyggju óx ég of dafnaði örugg, sátt og sæl. Ég gekk södd til sængur um tíu leytið þetta laugardagskvöld,  alsæl og hamingjusöm  lítil stelpa í litlu þorpi við ysta haf aðeins átta ára gömul. Mamma sat þá fram í eldhúsi að sauma jólakjólana á okkur systur, ég held ég hafi aldrei  átt von á fallegri kjól en þessi jólin. Ég þekki enga húsmóðir sem var duglegri en mamma mín.

Annað kvöld verður svo kveikt á stóra jólatrénu sem stendur sunnan við samkomuhúsið, þvílík stærð, alveg 30 metrar  og þvílík ljósadýrð, hellingur af mislitum stórum perum.  ÉG VAR ÖRUGGLEGA  HAMINGJUSAMASTA BARN UNDIR SÓLINNI.

 

07.12.2012 14:37

Húsavíkurbíó

Karl Emil Gunnarsson                                                

 

Húsavíkurbíó var mikil uppeldisstofnun á árum áður, fyrir daga myndbanda og síðar tölvuvæðingar þegar allir sem mús geta valdið stela nýjustu bíómyndunum næstum áður en þær eru komnar í bíó.

Ekki kom sú kvikmynd í hið merka samkomuhús á sjöunda áratug síðustu aldar að húsvísk ungmenni (og Valdi Fúsa) flykktust ekki í bíó og létu sig hafa að sitja upp undir tvo tíma í lausum stólum sem voru ekki annað en strigi strekktur á grind úr járnrörum og varð oft mikill skarkali þegar slegist var um fremstu sætin því að enginn var gólfhallinn til útsýnisbótar. Enn eru líka í minnum hafðar upphrópanir eins og „Naunaunau! Apinn rotar manninn sem á sig!“ þegar simpansalufsa nokkur barði Frumskóga-Jim (Johnny Weissmüller eftir að hann var orðinn of feitur til að leika Tarzan) með steini í hausinn og einhverjum bíógesti varð mikið um.

Á meðal okkar strákanna voru kvikmyndir gjarnan metnar eftir því hve margir voru sendir yfir móðuna miklu og hlaut myndin því hærri einkunn sem valkestirnir voru hærri. Við í Ásgarðsgenginu (Siggi í Ásgarði, Jóhann Gísla, Keli Kára) vorum miklir áhugamenn um hvers konar blóðbað og það vissi Hjalli, bróðir Sigga. Hann lá á því lúalaginu þegar hann kom í Ásgarð undir kvöldmat eftir vel unnin störf á Fjalar, næsta bæ við bíóið, að ljúga í okkur hvaða mynd yrði sýnd um kvöldið. Var hann ótrúlega fundvís á (uppdiktuð) nöfn sem hann vissi að mundu vekja eftirvæntingu hjá okkur, hrekklausum fyrirmyndardrengjum. Þegar hann flutti okkur þær fregnir að „Skotglaði pípulagningamaðurinn“ eða „Morðóði múrarinn“ (iðnaðarmenn voru greinilega í uppáhaldi hjá Hjalla) yrði á tjaldinu um kvöldið gátum við vart hamið spenninginn og þustum niður eftir til að verða fyrstir í miðasöluna. Þarf ekki að lýsa vonbrigðunum þegar í ljós kom að í stað blóðþyrstra iðnaðarmanna var mættur Peter Alexander eða einhver álíka lúði í þýskri dans- og söngvamynd.

Þó kom að því að Hjálmar sagði satt, svona einu sinni, og tjáði okkur að „Indíánarnir koma,“ með stórleikaranum Victor Mature, væri næsta hasarmynd í kvikmyndahúsinu. Hann hafði varla sleppt orðinu þegar við tókum til fótanna og tryggðum okkur miða og svokallað „prófgramm“ með effi og öllu (Siggi á sitt enn). Í þessu riti, „prófgramminu“, var því lofað að Victor Mature (eða Ben Lassiter eins og hann hét í myndinni) mundi kála hvorki fleiri né færri en 196 rauðskinnum og risahöggorminum Rauða demantinum í ofanálag.

Vonbrigðum okkar verður ekki með orðum lýst þegar í ljós kom að „prófgrammshöfundur“ hafði heldur en ekki lofað upp í ermina á sér. Ég held að nákvæm talning hafi ekki skilað nema um 20 dauðum indíánum og „risaslangan“ Rauði demanturinn reyndist vart stærri en ánamaðkar þeir sem við beittum fyrir lontur í Búðará og Skógargerðislæk.

Þótt okkur gengi illa að læra af reynslunni þegar Hjálmar Vigfússon lofaði okkur tjúlluðum trésmiðum eða öðrum vafasömum iðnaðarmönnum, tókum við fyrirheitum prófgrammanna um fordæmislaus fjöldamorð með korni salts upp frá þessu.

Hver er svo mórallinn? Ja, eiginlega enginn annar en sá að mikið djö… gat maður verið vitlaus stundum … og rosalega var gaman í Húsavíkurbíó!

 

Athugasemdir og viðbætur:

Hafþór Helgason: Dýrðleg frásögn þetta, ekki síst með svindlið í talningunni í prófgramminu. Mér finnst ég vera á staðnum. Man eftir deilum eftir bíó um hvort hitt eða þetta hefði verið blöffað eða ekki. Og Mikki Ungverji barði mann stundum með vasaljósi í hnéð ef lappirnar lentu upp á baki sætisins fyrir framan, en það var reyndar seinna þegar halli var kominn á salargólfið. En miklu fyrr (um miðja öldina) varð amma Stjana fræg fyrir að standa upp í miðri bíómynd og öskra eitthvað í þessa veruna: "Passaðu þig, passaðu þig, hann er á bak við stóra gjótið helvítið á honum" (aðrir muna kannski betur hvað hún nákvæmlega sagði). Hún hlammaði sér niður á eftir og hélt fyrir munninn. Þarna hafði bíó alvöru áhrif.

 

Karl Emil Gunnarsson:  Það var mikill viðburður þegar „Týnda gullborgin“ með grímuklædda einfaranum The Lone Ranger var sýnd í Húsavíkurbíó og skaut Roy-myndunum rækilega ref fyrir rass.  „Loni“, eins og hann var kallaður á Húsavík og eflaust víðar, var að snuðra uppi á þaki í einhverju yfirgefnu þorpi og sást þá hvar varmenni nokkurt laumaðist í áttina að honum og hafði greinilega ekkert gott í hyggju. Stóð þá upp horskur Húsvíkingur á aldur við mig og æpti svo að Loni komst ekki hjá því að heyra: „Loni! Loni! Varaðu þig!“ Loni sneri sér umsvifalaust við og skaut ódáminn. Talið er að hann eigi líf sitt téðum Húsvíkingi að launa.

Hallmar Sigurðsson: Nú er ég farinn að þekkja mig og kunna við mig í heimi minninganna. En ég hef oft furðað mig á því hingað til hvað allir voru mikilr höfðingjar og manngæskan óskapleg í minningum ykkar um Húsavík, kæru vinir. Það er varla minnst á nokkurn mann eða konu öðru vísi en þetta hafi sem söfnuður og hver og einn verið gjörvöllu mannkyni lýsandi fordæmi um mannkosti. Tíminn sem liðinn er og umræðan hefur lagst á eitt með að hlaða utan á bæjarbúa einhverjum þeim englabúningi sem ekki stemmir við mínar minningar. Ekki var ég neinn engill. Svo mikið er víst. Og félagar mínir sem ég umgekkst mest voru ekki nema í meðallagi siðaðir heldur. Nei, það var ekki guðleg spektin sem helst einkenndi okkur sem þarna bjuggum, unga eða aldna. Meira að segja skepnurnar áttu til ótuktarskap. Til að mynda Aska hans Þráinns Maríussonar sem var fyrsta hrossið sem ég man eftir að hafa komið á bak. Hún var nú ekki betur innrætt en svo að hún beit mig í tærnar báðu megin sitt á hvað og fremur mjakaðist hún afturábak en framávið eins og til var ætlast.Já, þetta voru galla- gripir og menn. Kannski er það einmitt þess vegna sem minningarnar eru bæði í litum og cinemascope.

 

Arnar Björns: frábært að koma heim úr vinnunni og detta inn í þennan gamla heim á gömlu Húsavík og það í kvikmyndahús sem tekur ekki nema rúmlega 100 manns! Meira að segja ég man eftir gömlu stólunum sem Kalli nefnir og hávaðanum þegar þeir grimmustu ruddust fram til að ná bestu sætunum. Á meðan Kalli og kó horfðu á bófamyndirnar lét ég Björgunarafrekið við Látrabjarg og Tónaflóð duga og sá Djúlí Andrús og Kristófer Plummer nokkrum sinnum og var með stjörnur í augunum. Þá var Mikki Ungverji, sá snillingur, ekki farinn að lumbra á manni með vasaljósinu, það gerðist ekki fyrr en maður fór á myndir bannaðar innan 12 ára (og átti 2-3 vikur í að ná þeim aldri). Mörgum árum seinna komst maður inn í bíóið og stóð fyrir aftan tjaldið á bönnuðu myndunum, með lífið í lúkunum um að upp kæmist. Já, rétt Kalli, Húsavíkurbíó lumar á mörgum ógleymanlegum minningum.

Arnar Björnsson: Halli, auðvitað voru þetta allt saman snillingar. Það tók okkur bara þennan tíma að komast að því. Ég er þeirrar náttúru gerður að nenna ekki að muna eftir leiðinlegheitunum, auðvitað var ekkert alltaf gaman. Það var grútfúlt að missa af góðu partíi, fá ekki að gera allt sem maður kaus. Þarna voru auðvitað á þeim tíma dusilmenni og drullusokkar fannst manni kannski stundum. En þegar maður kemst til einhvers þroska sér maður fólk og fyrirbæri í öðru ljósi, vonandi af meiri sanngirni en þegar maður stóð í slagnum miðjum. Þeir sem manni fannst glórulausir á sínum tíma voru þegar allt kom til alls hinir vænstu menn, það þurfti bara tíma og þroska til að komast að því.

 

Hallmar Sigurðsson: Arnar, mér þykir vænt um fólkið mitt. Mér þykir óskaplega vænt um fólkið mitt. Og þegar ég tala um fólkið mitt er ég ekki bara að tala um fjölskylduna mína á Álfhól eða niður við Búðará. Ég er að tala um fulla Húsavíkurkirkju eða heilt samkomuhús af fólki. Mér þykir ekki vænt um það þrátt fyrir galla þess. Mér þykir vænt um það barasta eins og það er eða var. Ég man einu sinni eftir því að verið var að hallmæla einum af fólkinu mínu hressilega og allir virtust nokkuð á einu máli með að hann væri í alla staði ómögulegur. Enginn mælti honum bót. Þá var það að Skarfurinn töfraði fram bros á andlit sitt og sagði: Hann var fljótur að hlaupa þegar hann var strákur. Það er nefnilega rétt hjá þér að Arnar, að það má alltaf finna eitthvað jákvætt við bæði menn og fyrirbæri og skemmtilegast er að finna slíkt þar sem þess er kannski síst von.

Sigríður Pétursdottir: Ekki lítið gaman fyrir bíókellingu eins og mig að lesa þessar minningar takk fyrir það!  Ég á svo sannarlega nokkrar úr Húsavíkurbíói enda tíður gestur þar. Pabbi fór með mig í bíó í fyrsta sinn þegar ég var 5 ára að sjá Bleika pardusinn. Ég var skelfingu lostin í marga mánuði á eftir því ég var svo hrædd við tígrisdýrafeldinn sem svaka dama lá á fyrir framan arinn. Hélt að dýrið myndi stökkva út úr tjaldinu og ráðast á mig. Ég man líka eftir því þegar við stelpurnar sáum hryllingsmyndina Carrie. Nokkrir af strákunum höfðu séð hana áður og settust fyrir aftan okkur. Þegar hendin kom upp úr jörðinni í lokin læstu þeir höndunum um hálsana á okkur, við öskruðum agalega og drápumst næstum úr hræðslu. Ég komst líka að því í þessu sama bíói að ég væri undarlegur bíónörd. Þegar Á hjara veraldar, eftir Kristínu Jóhannesdóttur, var sýnd gengu allir út á fyrsta korterinu nema ég. Sat alein eftir í salnum og horfði til enda

 

 

 

10.11.2012 11:31

Þegar sjónvarpið kom til Húsavíkur 1969

 

 

 

Arnar Björnsson

Sjónvarpið kom til Húsavíkur 1. desember 1969. Þá var ég 11 ára. Það var mikil spenna í bænum. Aldrei áður höfðu menn reigt höfðið í átt að Húsavíkurfjalli jafn oft og þessa síðustu daga nóvember mánaðar. Fjallið var skyndilega orðið miðpunkturinn. Þarna uppi höfðu menn dagana á undan verið að bauka við að koma upp sendi, orð sem við 11 ára guttarnir vissum ekkert hvað merkti. En af orðum fullorðna fólksins var þetta gríðarlega merkilegt orð, sendir. Menn hreinlega tókust á loft þegar þetta töfraorð var nefnt á nafn, sendir. Við vinirnir Ingó Beysa og Siggi Óla vorum líkt og aðrir orðnir rosalega spenntir. Ingó tilkynnti okkur Sigga á miðju sumri að Beysi pabbi hans væri búinn að kaupa sjónvarp. „Vá“, sögðum við og það sá undir iljarnar á okkur þegar við bárum foreldrum okkar þessar fréttir. Við byrjuðum að suða heima hjá okkur „pabbi hvenær ætlarðu að kaupa sjónvarpið“. Þetta var algengasta spurning barna og unglinga á Húsavík seinni part ársins 1967. Einn daginn kom Siggi Óla brosandi til okkar og tilkynnti okkur að faðir hans, Óli Bjarna, væri búinn að kaupa sjónvarp. Þarna stóð ég og horfði aðdáunarfullur á félaga mína. Nú stóð ég einn eftir. Ég dró mig afsíðis og fór heim. „Pabbi, bæði Óli pabbi Sigga og Beysi pabbi Ingó eru búnir að kaupa sjónvarp, hvenær ætlar þú eiginlega að gera það“. Ég var eins og lítill stjórnmálamaður (svipaður á hæð og Þór Saari). Nokkrum dögum síðar kom sjónvarp á Reykjaheiðarveginn. Pabbi hafði farið í járn og gler í KÞ föstudaginn 28. nóvember og keypt þetta glæsilega Philips 24 tommutæki og borgað fyrir það 24,375 krónur. Það var Sonni sjálfur sem afgreiddi. (Nótan er enn til og þar kemur fram að tækið sé tryggt í 1 ár gegn sérhverjum verksmiðjugalla. Ef ástæða fyrir viðgerðarbeiðni reynist aðeins vera stillingar sem sýndar eru í leiðarvísi fellur það ekki undir ábyrgð)

Þegar ég kom heim sá ég foreldra mína dást að gripnum. Ég mátti varla vera að því að skoða tækið, var hlaupinn út til að hitta vini mína Ingó og Sigga og segja þeim tíðindin. Seinna um kvöldið sat ég lengi í stofunni og horfði á þetta undratæki og gat varla beðið eftir 1. des. 1969.

Í Hafnarbíói var verið að sýna myndina, DRACULA, með Christopher Lee. Antony Quinn fór mikinn í GRIKKJANUM ZORBA í Nýjabíói og í Austurbæjarbíói var Jane Fonda að halda körlum með gráa fiðringinn við efnið í myndinni ALLTAF Á MIÐVIKUDÖGUM. Þjóðleikhúsið sýndi FIÐLARANN Á ÞAKINU og Leikfélag Reykjavíkur var með næst síðustu sýningu á SÁ SEM STELUR FÆTI ER HEPPINN Í ÁSTUM. Og Morgunblaðið greindi frá því þennan dag að Húsgagnaverksmiðjan Valbjörk á Akureyri hefði sagt upp 46 starfsmönnum frá næstu áramótum.

Ekkert af þessu fangaði hug okkar strákanna á Húsavík. 1. des. ætlaði bara aldrei að koma, sjálfur Fullveldisdagurinn. En svo kom hann. Dagana á undan höfðu orðið tíðindi. Beysi hafði keypt sjónvarpið í útlöndum og það átti að koma með Helga Fló. En Helgi Fló var ekki kominn til Húsavíkur. Upp úr klukkan sjö komið annað babb í bátinn. Það var eitthvert ólag á sjónvarpinu hjá Óla Bjarna. Þannig atvikaðist það að við þrír félagarnir vorum samankomnir á Reykjaheiðarveginum þegar faðir minn kveikti á sjónvarpinu klukkan hálf átta. Enn var hálftími í að útsendingin byrjaði. Ég hafði nokkurt forskot á félaga mína Ingó og Sigga. Ég hafði nefnilega séð sjónvarpsútsendingar áður. Um sumarið hafði ég nefnilega verið sendur til Grímseyjar til frændfólks míns þar. Snillingarnir í Grímsey höfðu forskot á okkur Húsvíkingana. Þar var reyndar enginn sendir en lega eyjarinnar gerði að verkum að stundum grillti í eitthvað í sjónvarpstækjum þeirra, stundum íslenska sjónvarpið en oftar en ekki einhver af norðurlandastöðvunum. Grímseyingar voru því langt á undan okkur Húsvíkingunum í menningunni. Þar sátu menn fyrir framan tækið og rýndu í gegnum grámóskuna og þegar myndin varð pínulítið skýr var hrópað á menn að koma inn í stofu. Ég var því í bílstjórasætinu þetta mánudagskvöld 1. des. 1969. Útskýrði fyrir Ingó og Sigga að stillimyndin yrði til klukkan korter í 8, þá kæmi klukka og popptónlist fram að fréttum. Á þessum dögum var aðeins hægt að hlusta á popptónlist í tveimur þáttum í útvarpinu; Lögum unga fólksins og Sjómannaþættinum. Við á Torginu vorum nú reyndar búnir að hlusta lengi á Radio Caroline og bítlamenningin löngu komin þangað. Skömmu áður hafði reyndar Oggi bróðir komið við í Bókabúð Þórarins Stefánssonar og keypt þar rosalega flottar græjur og átti þrjár plötur (Dietrich Fischer-Dieskau, The Hollies og einhverja sem ég man ekki, kannski Golden Gate Quartet). Við vinirnir horfðum á stillimyndina í korter, hljóðið var í botni og tóninn ógurlegi suðaði í eyranu á okkur í marga daga á eftir. Allt í einu byrjaði fréttatíminn. Við störðum á þetta, agndofa yfir herlegheitunum.

Klukkan 20,30 hófst nýr dagskrárliður; HALLORMSSTAÐASKÓGUR, svipast um í höfuðvígi íslenskrar skógræktar. Það var eins og við hefðum beðið eftir þessum dagskrárlið allt sumarið. Á Húsavík voru á þessum árum aðeins 3 tré, og höfðu verið lengi (vitna hér í höfuðkappann Ármann Sigurjóns) Þetta var langur þáttur en fyrir 11 ára stráka sem voru að upplifa sín fyrstu andartök í sjónvarpsmenningunni, býsna fróðlegur. Klukkan 21,15 kom svo sprengjan. FÝKUR YFIR HÆÐIR. Þetta var reyndar fjórði og síðasti þátturinn en við gátum alveg fyrirgefið mönnum að hafa misst af hinum þremur. Eitthvað hafði maður nú heyrt af Emily gömlu Bronte og hennar verkum. Þegar klukkan var 5 mínútur gengin í 11 birtist ekki danski píanóleikarinn Teddy Teirup og skellir sér í tvö verk eftir Chopin. Þarna sátum við ennþá vinirnir og sögðum ekkert fyrr en Teirup hafði lokið sér af. „Vá hvað hann er flinkur“. Við vorum þá nýbúnir að læra verkið NIKULÁS ER NOKKUÐ HÁS á blokkflautuna. Dagskránni þetta kvöld lauk svo með þættinum SVIPMYNDIR FRÁ ÍSLANDI. Þetta var mynd frá heimsókn norskra sjónvarpsmanna til Íslands fyrr um sumarið. Þarna var rætt við forystumenn í menningar og stjórnmálum. Í dagskrárkynningu er greint frá því að myndin sé óþýdd, eins og það hafi skipt einhverju máli. Við sátum sem límdir.

Við vinirnir horfðum á stillimyndina í einhverjar mínútur eftir dagskrárlok, bara til öryggis ef eitthvað skyldi koma í viðbót. Sjónvarpið var komið til Húsavíkur.